Skýrsla yfirstjórnar
Skýrsla yfirstjórnar

Neðri röð frá vinstri: Ólafur Arnar Þórðarson, Elsa Björk Knútsdóttir, Ólafur Hjálmarsson og Böðvar Þórisson
Efri röð frá vinstri: Björn Rúnar Guðmundsson og Hrafnhildur Arnkelsdóttir

SKÝRSLA YFIRSTJÓRNAR

Skipulag

Í upphafi árs voru kynntar breytingar á skipuriti Hagstofunnar. Breytingarnar fólust í að miðlun var færð frá rekstrarsviði til sviðs stjórnsýslu og samstarfs. Markmiðið með breytingunum var að skerpa á starfsemi upplýsingatæknideildar og að gera miðlun markvissari með aukinni áherslu á samskipti og frumkvæði í að koma sjónarmiðum Hagstofunnar á framfæri. Í því skyni var ráðinn deildarstjóri miðlunar sem hefur reynslu af fjölmiðlum og vefhönnuður til að leiða framþróun á vef Hagstofunnar.

Einnig voru gerðar breytingar á samsetningu sérfræðinga í upplýsingatækni til að mæta breyttum áherslum við skipulagsbreytinguna. Jafnframt voru starfsmannamál færð frá stjórnsýslu og samstarfi til yfirstjórnar, en gæðamál voru færð frá yfirstjórn til stjórnsýslu og samstarfs. Þessar breytingar voru innleiddar í áföngum og var stefnt að því að þær yrðu að komnar til framkvæmda undir árslok, eða í byrjun árs 2019.

Starfsmenn rekstrarsviðs á fundi
Starfsmenn rekstrarsviðs á fundi

Í lok árs 2017 voru málefni Hagstofu Íslands flutt frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til forsætisráðuneytisins, með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 84/2017. Í mars 2018 heimsótti forsætisráherra, Katrín Jakobsdóttir Hagstofuna ásamt æðstu embættismönnum forsætisráðuneytisins. Kynnti forsætisráðherra sér starfsemi Hagstofunnar og voru líflegar umræður um hlutverk og verkefni stofnunarinnar.

Innri starfsemi og þróun

Þróunarvinna

Mikil þróunarvinna einkenndi starfsemina á árinu og margar nýjungar litu dagsins ljós á öllum sviðum Hagstofunnar. Áhersla var lögð á góðan undirbúning og skipulag. Styrkir frá Eurostat hafa verið mikilvægir til að fjármagna nýsköpun og þróunarstarf hjá Hagstofunni.

Umbætur á innri verkferlum stofnunarinnar

Talsverð vinna var lögð í umbætur á innri verkferlum stofnunarinnar, m.a. hagtölur um lífskjör sem unnar eru á grunni lífskjararannsóknar Hagstofunnar (e. SILC). Áhersla var lögð á staumlínulögun ferla og þróun úrvinnsluaðferða og verklags. Áætlað er að fyrstu merki þessarar vinnu sjáist á næstu árum í útgáfum á hagskýrslum um lífskjör.

Sjálfvirknivæðing

Áhersla var lögð á aukna sjálfvirkni framleiðsluferla Hagstofunnar sem byggir á því að starfsmenn nýti netþjóna frekar en einkatölvur sem keyrsluumhverfi. Nýr tækjakostur var keyptur fyrir sjálfvirkari ferli.

Fartölvuvæðing

Á árinu 2018 var byrjað að deila út fartölvum til starfsmanna til að auðvelda aukna samvinnu og voru fyrstu fartölvurnar afhentar í nóvember. Það sem ávinnst með þessu er ekki eingöngu hreyfanleiki og samvinnu starfsmanna, heldur markar verkefnið tímamót í sjálfvirknivæðingu og uppsetningu á innviðabúnaði hjá Hagstofunni.

Persónuvernd

Ný löggjöf um persónuvernd tók gildi á árinu og var þó nokkur vinna við að undirbúa þá innleiðingu. Þar sem Hagstofan er með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis gekk innleiðingin vonum framar.

Nýtt gagnasöfnunarviðmót

Þróunarvinna við nýtt gagnasöfnunarviðmót fyrir upplýsingar um framleiðslu, umhverfisreikninga og starfsstöðvar fyrirtækja hófst á árinu í samstarfi við upplýsingatæknideild.

Miðlæg gagnasöfnun

Á árinu 2018 hafa gagnasöfnunarverkefni í auknum mæli færst frá hagskýrslusviðunum yfir til gagnasöfnunardeildar. Má í því sambandi nefna söfnun gagna um fjárfestingu, ýmis gögn vegna ferðaþjónustureikninga og utanríkisverslunar.

Ný tækni við PPP mælingar

Tekin var í notkun nýr verðmælingahugbúnaðar fyrir alþjóðlegan verðsamanburð (e. PPP) sem auðveldaði gagnagrunnsvinnslu verkefnisins.

Gagnasöfnunarkerfið Blaise 5

Gagnasöfnunarkerfið Blaise 5 var innleitt í fyrirtækjarannsóknir á árinu og gaf mjög góða raun.

Hönnun og forritun á nýju búrgagnavinnslukerfi

Gagnasöfnun lauk hönnun og forritun á nýju búrgagnavinnslukerfi á árinu þar sem allt viðmót, innsláttur og kóðun er bætt. Kerfið tryggir betri gæði gagna og nýtir fyrri skráningar til að flýta fyrir vinnslu starfsmanna.

Breyting á útgáfuflokkum Hagstofunnar

Í lok árs var gerð breyting á útgáfuflokkum Hagstofunnar með það að leiðarljósi að auka sveigjanleika í útgáfum og sérstaklega að hraða útgáfum þar sem það á við. Jafnframt voru samdar útgáfureglur um endurbirtingu á gögnum annarra tölfræðiframleiðanda.

Vefskilakerfi og töflustjórnun

Á árinu var unnið að nýju vefskilakerfi. Talsverð breyting er á högun kerfisins og er ætlunin að færa eignarhald og rekstur alfarið yfir til gagnasöfnunardeildar.

Töflustjórnun ruddi sér til rúms á öllum sviðum á árinu og hafði jákvæð áhrif á skipulag og yfirsýn verkefna ásamt auknu upplýsingaflæði.

Töflufundur á félagssviði
Töflufundur á félagsmálasviði

Heimsókn EFTA

Starfsmenn tölfræðiskrifstofu EFTA (ESO) heimsóttu Hagstofuna á árinu og kynntu starfsemi sína. ESO er einn mikilvægasti samstarfsaðili Hagstofunnar í samskiptum við Eurostat og gerir hún árlegar úttektir á birtingu tölfræðiupplýsinga frá EFTA ríkjunum í útgáfum Eurostat.

Samstarf við umboðsmann barna

Yfirlýsing um samstarf við umboðsmann barna var undirrituð í maí. Jafnframt átti Hagstofan í samstarfi við Unicef á Íslandi um mælingu á kjörum barna sem hluta af lífskjararannsókn Hagstofunnar og er áætlað að niðurstöður birtist á fyrri hluta árs 2019.

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.

Hagstofan situr í verkefnastjórn um Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Á árinu var unnið að tölfræðiviðauka við stöðuskýrslu, þar sem verkefnastjórn lagði fram yfirlit yfir stöðu Heimsmarkmiðanna 17 hér á landi. Viðaukinn taldi 67 tölfræðivísa og verður áfram unnið að framleiðslu og þróun á tölfræði Heimsmarkmiðanna.

Miðlun og kynningarstarf

Öflugt kynningarstarf var rekið á árinu, fjölmiðlar voru sóttir heim og miðlun hagtalna á samfélagsmiðlum efld. Nánar er fjallað um samskipti og miðlun í kaflanum „Gagnasöfnun og miðlun”.

Rannsóknir og hagskýrslur

Rannsókn á upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga

Rannsókn á upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga var gerð árið 2018. Rannsóknin, sem hefur verið gerð hérlendis með hléum frá árinu 2002, byggir á samevrópskum aðferðum og niðurstöðurnar því samanburðarhæfar yfir tíma og milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins. Fyrstu niðurstöður fyrir 2018 voru gefnar út á vef Eurostat í janúar 2019 þar sem sjá má niðurstöður fyrir Ísland samanborið við önnur lönd innan evrópska efnahagssvæðisins.

Norræn samstarfsverkefni

Unnið var að tveimur norrænum samstarfsverkefnum árið 2018. Annað verkefnið sneri að samræmingu aðferða við útreikninga á búferlaflutningum og lauk verkefninu á árinu með birtingu á talnaefni. Hitt verkefnið snýr að mati á áhrifum fólksflutninga milli norrænna landa. Það verkefni gekk vel fyrri hluta árs en hverfðist að miklu leyti um mismunandi löggjöf Norðurlandanna seinni hluta ársins og var það framlengt um sex mánuði eða fram á mitt ár 2019.

Sérfræðingahópur um færni og menntunarþörf

Hagstofa Íslands tók þátt í vinnu sérfræðingahóps um færni- og menntunarþörf á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Vinnumálastofnun, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Sérfræðingahópurinn skilaði skýrslu um spáferli nokkurra landa og stöðuna á Íslandi í maí 2018. Í skýrslunni eru jafnframt kynntar tillögur hópsins um að tekið verði upp spáferli um færniþróun á vinnumarkaði hér á landi og að horft verði til reynslu nágrannaþjóða í þeim efnum.

Félagsvernd

Haustið 2018 var endurvakið samráð félagsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags félagsmálastjóra og Hagstofunnar um umbætur í hagskýrslugerð um félagsvernd sveitarfélaga. Áætlað er að vinnan skili umbótum í hagskýrslugerð á næstu árum.

Félagsvísar

Félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012, að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega ýmsar samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Síðla árs 2018 fór af stað markviss endurskoðun á félagsvísum með það að markmiði að skýra nánar hvað vísarnir eigi að mæla, meta gæði mælinga og útskýra hugtök félagsvísa með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Niðurstöður verða birtar árið 2019.

Mynd af félagsvísum

Útgjöld fyrirtækja og stofnana til rannsóknar- og þróunarstarfs

Á árinu 2018 var gerð rannsókn á útgjöldum fyrirtækja og stofnana til rannsóknar- og þróunarstarfs og voru niðurstöður birtar á árinu, en rannsóknin er framkvæmd annað hvert ár. Jafnframt var gerð rannsókn á notkun fyrirtækja á upplýsingatækni . Rannsóknirnar fylgja alþjóðlegum stöðlum og aðferðarfræði OECD og Eurostat. Í rannsókn ársins 2018 var sérstök áhersla lögð á upplýsingar um auglýsingar í gegnum samfélagsmiðla.

Aukin þekja launarannsóknar

Unnið var að aukinni þekju launarannsóknar og náðist það markmið að gagnaskil frá launagreiðendum í hótel- og veitingahúsageiranum eru nú í lokafasa undirbúnings.

Greining launavísitölu

Unnið var að greiningu á launavísitölu sem birtist í greinargerð um aðferðafræði launavísitölu í ágúst 2018. Hagstofan tók einnig þátt í úttekt á launavísitölu sem framkvæmd var af dr. Kim Zieschang, sérfræðingi í verðvísitölum. Úttektin var á vegum nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga.

Nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga. Frá vinstri: Rósmundur Guðnason, Violeta Calian, Lárus Blöndal, dr. Kim Zieschang, Margrét Kristín Indriðadóttir, Hrafnhildur Arnkelsdóttir og Margrét Vala Gylfadóttir.
Nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga. Frá vinstri: Rósmundur Guðnason, Violeta Calian, Lárus Blöndal, dr. Kim Zieschang, Margrét Kristín Indriðadóttir, Hrafnhildur Arnkelsdóttir og Margrét Vala Gylfadóttir

Launamunur kynjanna

Í mars voru birtar niðurstöður rannsóknar Hagstofu Íslands á launamun kynjanna 2008-2016 í samvinnu við aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Hagstofan kynnti niðurstöður rannsóknar á Jafnréttisþingi 2018.

Rafrænt manntal 2021

Vinna við skoðun heimilda vegna rafræns manntals sem tekur mið af árinu 2021 hófst á árinu.

Tekjur, eignir og skuldir á grundvelli skattagagna

Áfram var unnið að þróun hagtalna um tekjur, eignir og skuldir á grundvelli skattgagna. Í ágúst voru birtar upplýsingar um tekjur einstaklinga árin 1990 til 2017 skipt eftir sveitarfélögum, aldri og kyni. Hagstofan birti einnig í fyrsta sinn talnaefni um tekjur einstaklinga árin 1990 til 2017 eftir menntun, kyni og aldri. Um var að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra. Upplýsingar um menntun byggja á gögnum sem Hagstofan hefur unnið að síðustu misseri og miðar að samræmdri skrásetningu á hæstu menntun einstaklinga.

Vinnumarkaðstölfræði

Mikil gerjun varð í vinnumarkaðstölfræði á árinu. Tengist það annars vegar innleiðingu á nýrri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fyrirséð er að hætta sé á broti á tímaröðum. Hagstofan hélt í maí 2018 evrópska vinnustofu í vinnumarkaðstölfræði þar sem áhersla var lögð á tímaraðir. Auk þess hafa mælingar á vinnutíma verið til umræðu og fékk Hagstofan sérstakan styrk frá Eurostat til að framkvæma aukarannsókn á vinnutíma í vinnumarkaðsrannsókn árið 2019.

Sveitastjórnarkosningar

Unnið var að gagnasöfnun og úrvinnslu upplýsinga um sveitarstjórnarkosningar í maí sl. Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga sendu Hagstofu Íslands, lögum samkvæmt, skýrslu um niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna. Gögn bárust frá öllum 72 sveitarfélögum um almenna kosningaþátttöku auk upplýsinga um önnur úrslit kosninganna sem Hagstofan mun gera nánari skil árið 2019. Einungis bárust gögn frá 39 sveitarfélögum um sérstaka skráningu á kjörsókn eftir aldri sem einnig var kallað eftir. Þekja innsendra gagna var þó nægileg til að hægt væri að vinna upplýsingar um kjörsókn eftir aldri og ríkisfangi sem birtar voru í september 2018. Nokkur umræða var um gagnasöfnun vegna sveitarstjórnarkosninganna og launatölfræði á árinu.

Rannsókn á lausum störfum

Unnið var að undirbúningi á rannsókn á lausum störfum sem er ársfjórðungsleg rannsókn meðal lögaðila á áformum þeirra um ráðningar. Í undirbúningi fólst samráð við helstu notendur, greining á íslenskum vinnumarkaði, helstu aðferðum sem til greina komu og lausnum annarra ríkja en rannsóknin er framkvæmd hjá öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Frumgerð rannsóknarinnar var lögð fyrir úrtak fyrirtækja á fjórða ársfjórðungi 2018 og gáfu niðurstöður prófana góð fyrirheit og fer verkefnið í fullan rekstur á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Þróun nýrra hagvísa um húsnæðismál

Unnið var að þróun nýrra hagvísa um húsnæðismál. Fyrsti áfangi verkefnisins sem fór á skrið haustið 2018 fólst í samráði við notendur, skrásetningu og mati á heimildum auk þess sem unnið var að breyttri verkskiptingu innanhúss. Stefnt er að fyrstu útgáfu árið 2019.

Skil á launakostnaðarvísitölu

Skil á launakostnaðarvísitölu (e. Labour Cost Index) til Eurostat hófust á árinu og voru niðurstöður fyrir Ísland birtar á vef Eurostat haustið 2018 en þær ná aftur til ársins 2008.

Launatölfræði

Mikil áhersla var á launatölfræði á árinu, þá sérstaklega launavísitölu, auk þess sem önnur vinnumarkaðstölfræði var í kastljósinu. Forsætisráðherra skipaði í ársbyrjun nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga sem starfaði allt árið. Auk þess að eiga fulltrúa í nefndinni var það hlutverk Hagstofunnar að styðja við nefndarstarf með upplýsingagjöf. Hagstofan fór einnig í kynnisferð til norsku hagstofunnar, Statistisk sentralbyrå, til að kynna sér heildartalningu launaupplýsinga hjá launagreiðendum og breytingar á hagskýrslugerð sem orðið hefur í kjölfarið.

Vísitala heildarlauna

Birting á ársfjórðungslegri vísitölu heildarlauna hófst í júlí 2018 en vísitalan tekur mið af aðferðum Labour Cost Index. Vísitala heildarlauna varpar ljósi á þróun launa þar sem breytingar á samsetningu vinnuafls og vinnutíma hafa áhrif ólíkt launavísitölu sem sýnir launaþróun fyrir fasta samsetningu vinnuafls. Útreikningar byggja á samtölu allra staðgreiðsluskyldra launa á greidda vinnustund og voru upplýsingar birtar aftur til ársins 2008.

Upplýsingar um laun

Hagstofan birti í september síðastliðnum samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2017 með upplýsingum um laun starfsstétta fyrir allan vinnumarkaðinn, einstakar atvinnugreinar og launþegahópa. Einnig voru birtar upplýsingar um laun fyrir um 200 störf og starfsstéttir.

Tölfræði um skuldir og eignir

Í júlí voru gefin út Hagtíðindi og ítarlegt talnaefni um skuldastöðu og greiðslubyrði vegna skulda árin 2015 til 2018 eftir aldri, fjölskyldugerð og tíundahlutum ráðstöfunartekna, eigna og eiginfjár. Niðurstöðurnar voru hluti af tölfræðiverkefni um skuldir heimilanna sem stjórnvöld fólu Hagstofunni og byggði á gagnasöfnun frá fjármálastofnunum. Öllum frumgögnum var eytt í árslok 2018 til samræmis við bráðabirgðaákvæði við lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

Fjöldi starfandi á íslenskum vinnumarkaði

Hagstofa Íslands birti í apríl síðastliðnum í fyrsta sinn upplýsingar um fjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt skrám. Niðurstöður ná til allra einstaklinga með atvinnutekjur sem gefnar eru upp til staðgreiðslu, þ.e. laun vegna vinnu, fæðingarorlofsgreiðslur og reiknað endurgjald. Fjöldi starfandi er flokkaður eftir kyni, aldri, bakgrunni, atvinnugreinum og staðsetningu lögheimilis. Talnaefnið er uppfært mánaðarlega á vef Hagstofunnar.

Nýtt starfaflokkunarkerfi

Verkefni sem snýr að innleiðingu á nýju starfaflokkunarkerfi og byggir á alþjóðlega staðlinum ISCO08 fór seinna af stað árið 2018 en áætlað var þar sem ekki fékkst sú mönnun sem lagt var upp með. Verkefnið var því brotið niður í minni verkþætti og útvistað að hluta. Í kjölfarið fór staðallinn í þýðingu og gengur verkið vel. Unnið verður áfram að þýðingu, staðfæringu og innleiðingu á árinu 2019.

Tölfræði um menningu og listir

Árið 2018 fór af stað vinna við að bæta framboð af hagtölum um menningu og listir. Lögð var áhersla á samráð við notendur, yfirferð á flokkun sem lögð verður til grundvallar hagrænum mælikvörðum og samtal um hvaða upplýsingar eru til á Hagstofunni sem fallið geta undir málaflokkinn. Jafnframt voru upplýsingar um vinnuafl samkvæmt skrám gefnar út fyrir skapandi greinar. Árið 2018 voru birtar tvær fréttir um auglýsingatekjur fjölmiðla, annars vegar um tekjur fjölmiðla árið 2016 og hins vegar hagtölur um tekjur fjölmiðla í alþjóðlegu samhengi árið 2017.

Tölfræði um börn

Í lok maí birtust í fyrsta sinn hagtölur sem snertu sérstaklega stöðu barna. Um var að ræða samantekt upplýsinga sem sumar hverjar hafa áður birst, en einnig nýjar upplýsingar. Talnaefni um börn er nú hægt að finna á einum stað á vef Hagstofunnar. Í nóvember gaf Hagstofan út greinargerð um börn á vinnumarkaði og voru niðurstöður kynntar á málþingi Umboðsmanns barna og Vinnueftirlitsins. Jafnframt átti Hagstofan í samstarfi við Unicef á Íslandi um mælingu á kjörum barna sem hluta af lífskjararannsókn Hagstofunnar og er áætlað að niðurstöður birtist á fyrri hluta árs 2019.

Lýðfræði fyrirtækja

Fyrstu tölum um lýðfræði fyrirtækja, fyrir árin 2008–2016, var skilað til Eurostat haustið 2018 samkvæmt reglugerð og eru skil á lýðfræði nú í takt við kröfur Eurostat um skil. Haldið var áfram að vinna að uppbyggingu á skammtímatölfræði og skammtímahagvísum atvinnugreina (e. Short Term Statistics; STS).

Skammtímahagvísar í ferðaþjónustu

Á árinu hófst regluleg mánaðarleg birting á skammtímahagsvísum í ferðaþjónustu, þar sem hægt er að fá góða yfirsýn yfir þróun atvinnugreinarinnar á einum stað.

Vöruviðskipta- og fyrirtækjatölfræði

Á árinu vann Hagstofan ný gögn úr tveimur stórum gagnasettum, þ.e. vöruviðskipta- og fyrirtækjatölfræði. Tilgangurinn er að skoða hvers konar fyrirtæki eru á bakvið flæði vara til og frá landinu m.a. út frá stærð þeirra, atvinnugreinaflokkun og hver viðskiptalöndin eru.

Tölfræði um menntun og skóla

Unnið var að átaksverkefni í hagskýrslugerð um menntun og skóla í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og lauk því til samræmis við uppsett markmið um mitt ár 2018. Jafnframt var bætt við upplýsingum um nemendur, til dæmis um nýnema á framhaldsskólastigi aftur til 1997.

Sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði

Á árinu 2018 voru fyrstu tölur birtar fyrir árin 2008–2017 um rekstur og efnahag sauðfjár-, kúa- og annarra nautgripabúa eftir landsvæðum og stærð. Hætt var að nota skýrslur um hag veiða og vinnslu sem grunn til skattlagningar á sjávarútveg en útreikningur veiðigjalda voru m.a. byggðir á skýrslum Hagstofunnar.

Tölfræði um ferðaþjónustu

Á árinu 2018 kom til mánaðarlegrar birtingar á áætlun um heildarfjölda gistinátta á öllum tegundum gististaða, en þar er gengið lengra en kröfur Evrópureglugerðar 692/2011. Hér bætast við hefðbundnar og lögbundnar útgáfur, áætlanir um seldar gistinætur í gegnum Airbnb og sambærilegar vefþjónustur, gistinætur í bílum utan tjaldstæða og gistinætur sem ekki er greitt fyrir s.s. húsaskipti og gisting hjá vinum. Framleiðslan hefur vakið mikla athygli innanlands og utan og kynningar á verkefninu verið haldnar heima og erlendis.

Umhverfistölfræði og umhverfisreikningar

Unnið var við framleiðslu umhverfisreikninga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar með fjármögnun og ráðningu sérfræðinga til verkefnisins. Verkefnið skiptist í nokkra hluta, en á árinu 2018 var unnið að tölfræði sem snýr að losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands. Gögnum var skilað til Eurostat og birt á vef Hagstofunnar fyrir árin 1995 til 2016. Jafnframt hófst vinna við orkuflæðisreikninga í lok árs 2018.

Vinnumagnstölur

Birting á vinnumagnstölum, þ.e. fjölda vinnustunda, starfandi og starfa er nú í samræmi við þjóðhagsreikninga og birtar bæði ársfjórðungslega og árlega. Jafnframt hófst útgáfa gagna um framleiðni vinnuafls sem mikil eftirspurn hefur verið eftir. Í fyrstu atrennu eru birtar tölur aftur til 2008 en stefnt er að því að þær nái aftur til 2005.

Mánaðarleg þjónustuviðskipti

Hafin var útgáfa mánaðarlegra heildartalna þjónustuviðskipta við útlönd. Samhliða því eru birtar mánaðarlegar heildartölur fyrir vöru- og þjónustuviðskipti. Þessi tölfræði er enn í þróun og verður unnið að því að styrkja aðferðafræðilegan grunn og koma birtingum í fastan farveg.

Frá hagstofustjóra Fjármál og rekstur