Skipurit
Skipurit

Hagstofa Íslands vinnur hlutlægar hagskýrslur, hefur forystu um samhæfingu hagtalna, stundar rannsóknir og stuðlar þannig að upplýstri umræðu og faglegum ákvörðunum.

Hagstofan skiptist í fimm svið; stjórnsýsla og samstarf, efnahagssvið, félagsmálasvið, fyrirtækjasvið, rekstrarsvið, auk skrifstofu yfirstjórnar.

Hagstofunni stýrir hagstofustjóri. Starfsmannamál heyra beint undir hann auk rannsóknadeildar, en hún hefur það að meginverkefni að gera þjóðhagsspár. Hagstofustjóri og sviðsstjórar mynda yfirstjórn Hagstofunnar. Staðgengill hagstofustjóra er Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs.

Skipurit Hagstofu Íslands

Stjórnsýsla og samstarf

Undir sviðið heyra samskipti, almannatengsl, útgáfumál, vefur, alþjóðasamstarf, aðferðafræði og gæðamál, persónuverndarmál, umsýsla sérvinnslubeiðna, samstarf við aðra framleiðendur hagtalna, þjónusta við rannsóknarsamfélagið og umsýsla umsókna um aðgang að trúnaðargögnum. Ólafur Arnar Þórðarson er sviðstjóri stjórnsýslu og samstarfs.

Efnahagssvið

Á efnahagssviði starfar utanríkisverslunardeild að söfnun og úrvinnslu gagna um þjónustuviðskipti og vöruviðskipti Íslendinga við útlönd. Vísitöludeild reiknar út vísitölu neysluverðs, vísitölu byggingarkostnaðar, vísitölu framleiðsluverðs og skyldar verðvísitölur. Deildin sér um alþjóðlegan verðsamanburð (PPP) og frágang og útgáfu á niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna. Deild um þjóðhagsreikninga og opinber fjármál vinnur að framleiðslu-, ráðstöfunar- og tekjuskiptingaruppgjöri þjóðhagsreikninga, gerð ársfjórðungsreikninga, fjármálareikninga og ferðamálareikninga. Einnig vinnur deildin að gerð hagvísa og annast hagskýrslugerð um búskap hins opinbera og um tekjuskiptingu. Björn Rúnar Guðmundsson er sviðsstjóri efnahagssviðs.

Félagsmálasvið

Á félagsmálasviði starfa tvær deildir að félagsmálatölfræði. Atvinna, lífskjör og mannfjöldi vinnur að hagskýrslugerð um vinnuaflið, lífskjör, félagsvernd, heilbrigðismál, kosningar, stöðu kynja, lýðfræði og mannfjölda. Laun, tekjur og menntun annast hagskýrslugerð um tekjur, laun, launakostnað, menntun, skólamál, menningarmál og fjölmiðla. Hrafnhildur Arnkelsdóttir er sviðsstjóri félagsmálasviðs.

Fyrirtækjasvið

Á fyrirtækjasviði starfar deild um fyrirtækjatölfræði sem vinnur tölfræði um fyrirtæki og atvinnuvegi. Rekstur fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar heyrir undir sviðið og er grundvöllur fyrir þá fyrirtækjatölfræði sem unnin er. Unnin er skammtímatölfræði um veltu og starfsmannafjölda eftir atvinnugreinum sem og árleg tölfræði um rekstur og afkomu atvinnugreina. Tölfræði um ferðaþjónustu, iðnaðarframleiðslu, sjávarútveg og landbúnað heyrir undir sviðið. Einnig heyrir tölfræði um rannsóknir og þróun í íslensku hagkerfi sem og tölfræði um nýsköpunarvirkni fyrirtækja undir sviðið. Böðvar Þórisson er sviðsstjóri fyrirtækjasviðs.

Rekstrarsvið

Á rekstrarsviði starfa þrjár deildir, fjármáladeild, gagnasöfnunardeild og upplýsingatækni. Fjármáladeild sér um rekstur, bókhald og fjármál. Upplýsingatækni annast rekstur og þjónustu vegna tölvukerfa. Deildin sér einnig um hönnun, forritun og rekstur á sérsniðnum hugbúnaðarlausnum. Gagnasöfnun vinnur, eins og nafnið gefur til kynna, að gerð úrtaksrannsókna og annarri gangnasöfnun, auk þess að sjá um afgreiðslu- og skiptiborð Hagstofunnar. Innan sviðsins er enn fremur unnið að ýmsum þróunar- og öryggismálum sem varða meðal annars hugbúnað og verklag. Elsa Björk Knútsdóttir er sviðsstjóri rekstrarsviðs.

Mannauður