Notendur
Notendur

Samráð og samstarf við notendur

Tveir fundir voru haldnir með notendahóp rannsóknarsamfélagsins á árinu. Nýtt og einfaldara verklag við afgreiðslu rannsóknabeiðna var kynnt fyrir hópnum á síðari fundinum og fékk það góðar undirtektir. Verklagið verður tekið upp á næsta ári með það að leiðarljósi að hraða afgreiðslu og veita betri þjónustu. Samráð var haft við notendur við þróun og undirbúning á rannsókn á lausum störfum, á nýjum hagvísum um húsnæðismál og á tölfræði um menningu og listir.

Sérvinnslur

Sem fyrr voru unnar ýmsar sérvinnslur til ytri aðila og má þar helst nefna sérvinnslur fyrir aðila vinnumarkaðarins vegna kjarasamningsgerðar og fyrir stjórnsýsluna, svo sem vegna vefsins tekjusagan.is. Ennfremur hafa verið unnin ýmis gagnasöfn fyrir vísindasamfélagið sem afgreidd hafa verið á vettvangi rannsóknarþjónustu Hagstofunnar. Samið var á ný við aðila á almennum vinnumarkaði um launarannsóknir vegna kjarasamninga, en þeir sögðu samningnum upp í árslok 2017 með árs fyrirvara.

Samstarfssamningur við Háskólann í Reykjavík

Í lok ársins var gengið frá samstarfssamningi við Háskólann í Reykjavík um samvinnu við meistaraverkefni nemenda.

Fullveldisafmæli

Unnið var í samstarfi við forsætisráðuneyti að útgáfum á tölfræði tengdri 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Hagstofan gaf út myndband sem birt var á vef Hagstofunnar, samfélagsmiðlum og á Youtube. Myndbandið fékk góðar undirtektir en í því var munurinn á lífsháttum Íslendinga í dag og fyrir 100 árum skoðaður út frá hagtölum.

Evrópski tölfræðidagurinn

Evrópski tölfræðidagurinn var haldinn 20. október og gaf Hagstofan út myndband að því tilefni, en á þessum degi vekja hagstofur í Evrópu athygli á og samfélagslegu mikilvægi evrópskra hagtalna. Myndbandið fjallaði um ástina, með tilvísunum í tölfræðina og var því dreift á netinu.

Aukin ánægja með Hagstofu Íslands

Fjórða notendakönnun Hagstofu Íslands var gerð í febrúar og mars árið 2017. Áður höfðu notendakannanir verið lagðar fyrir árin 2009, 2013 og 2015.

Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna hug notenda til stofnunarinnar og mat þeirra á gæðum opinberra íslenskra hagtalna.

Mæling ársins 2017 er sú hæsta frá því að mælingar á ánægju notenda Hagstofunnar hófust árið 2009 en þá var hún 6,7 og 6,9 árið 2013.

Samanburður á ánægju notenda 2009 - 2017 (línurit): Árið 2009 var ánægja notenda 6,7, árið 2014 var hún 6,9, árið 2016 var hún 6,6 og árið 2017 var hún 7,2
Myndin sýnir ánægju notenda með þjónustu Hagstofunnar fyrir tímabilið 2009-2017 á kvarðanum 0-10
Fjármál og rekstur Gagnasöfnun og miðlun