Frá hagstofustjóra
Frá hagstofustjóra

Gögn og hagskýrslur eru drifkraftar í nútíma hagkerfi. Hagskýrslugerð er dýr og fjármagn er takmarkað til að vinna tölulegar upplýsingar sem eru hlutlægar og uppfylla alþjóðlegar gæðakröfur. Það er því mikilvægt að forgangsraða verkefnum í hagskýrslugerð og dreifa kröftunum ekki um of. Það er mikilvægara að hafa gögn sem lýsa nokkurn veginn því sem við þurfum svar við, en nákvæmt svar við rangri spurningu, svo vísað sé til John Tukey.

Hagtölur gefa okkur mis nákvæm svör við spurningum og þær geta tekið breytingum og leiðréttingum við endurskoðun þegar fyllri gögn liggja fyrir. Óskir um sífellt meiri upplýsingar berast nær daglega til Hagstofunnar. Einnig eru kröfur um meiri nákvæmni, aukna sundurliðun, auk þess að upplýsingar birtast fyrr og tíðar en áður. Framtíðin felur í sér sífellt aukna tíðni hagskýrslna og á sumum sviðum er krafan að birta upplýsingar sem næst í rauntíma.

Það getur ráðið úrslitum um árangur, að byggja ákvarðanir á sannreyndum gögnum. Almennur aðgangur að traustum hagtölum er því nauðsynlegur, bæði fyrir velferð og efnahag þjóða og sem grunnur fyrir málefnalega og upplýsta umræðu. Hans Rosling sagði: „Ekki er hægt að skilja umheiminn án talna, en umheimurinn verður ekki skilinn með tölum eingöngu“. Við verðum að setja hagtölur í samhengi og þekkja styrkleika þeirra og veikleika, hvað þær segja og hvað þær segja ekki.

Hagstofan leggur metnað sinn í að birta hagtölur sem svara spurningum mismunandi notenda, eru af viðurkenndum gæðum og unnar af hlutlægni. Þegar hagtölur birtast eru þær túlkaðar á mismunandi hátt í umræðunni. Of algengt er að hagsmunaaðilar velji þær tölur, sem styrkja málstað þeirra, þeir ákvarði tímabil sem hentar, leggi áherslu á eitt atriði, en hafi hljótt um önnur. Einnig hafa hagsmunaaðilar reynt að draga úr trúverðugleika opinberra hagtalna, eða jafnvel hafnað þeim alveg.

Sem betur fer eru þeir mun fleiri, sem setja hagtölur í víðara samhengi og finna jafnvel nýjan og óvæntan flöt á málum. Setja metnað í að upplýsa með hlutlægri umfjöllun og gera grein fyrir álitamálum. Samstarf Hagstofunnar við fræðasamfélagið og fjölmiðla hefur verið gott og Hagstofan hefur reynt að sinna fyrirpurnum og taka saman þau gögn sem tiltæk eru um þau málefni sem spurt er um. Sumar fyrirspurnir, einkum frá fræðasamfélaginu, eru það viðamiklar að nauðsynlegt er fyrir Hagstofuna að afgreiða þær samkvæmt gjaldskrá til að geta orðið við þeim, án þess að ganga á rétt almennra notenda og lögbundið hlutverk um hagskýrslugerð.

Það er áleitin spurning hvort við erum að forgangsraða rétt og leita svara við réttum spurningum. Þjóðfélagið tekur sífelldum breytingum, hvort sem um er að ræða atvinnulíf, tækni, menningu, samskipti, heimilisgerð eða annað. Málefni sem talið var lítilvægt fyrir nokkrum árum, er orðið að mikilvægu viðfangsefni í dag. Hve hratt á að bregðast við og hvernig má fanga þær breytingar sem bera við sjóndeildarhringinn núna? Slíkar spurningar eru sífellt viðfangsefni og takmarkast ekki við hagskýrslugerð.

Hagskýrslugerðin sjálf tekur breytingum vegna nýrrar tækni, sem felur í sér sóknarfæri. Til dæmis með vélnámi, gervigreind og auknu magni sjálfvirkra skráninga, svonefndra fótspora sem við skiljum eftir okkur í rafheimum. Auk nýrra spurninga, til að leita svara við og krafna um nákvæmari og tíðari upplýsingar, togast hér á sjónarmið um lögmæti, friðhelgi og persónuvernd, sem ávallt verða að sitja í fyrirrúmi.

Hagstofan vill þakka notendum fyrir gott samstarf og leiðsögn við forgangsröðun verkefna á umliðnum árum. Einnig þakkar Hagstofan fyrir velvilja almennings og fyrirtækja við að svara könnunum, eða veita aðgang að rafrænum upplýsingum. Án þátttöku þeirra yrði mörgum af þeim spurningum sem brenna á samtímanum ósvarað.

Undirskrift hagstofustjóra

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri

„An approximate answer to the right problem is worth a good deal more than an exact answer to an approximate problem.”

John Tukey

„The world cannot be understood without numbers. But the world cannot be understood with numbers alone.”

Hans Rosling
Skýrsla yfirstjórnar