Mannauður
Mannauður

Fjöldi starfsmanna

Í lok árs 2018 störfuðu 113 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 105,4 stöðugildum, 64 karlar og 49 konur. Meðalaldur starfsmanna var rúmlega 46 ár og höfðu þeir starfað að meðaltali 8,5 ár hjá Hagstofunni.

Skýringarmynd af kynjaskiptingu starfsmanna auk meðalaldri starfsmanna Hagstofu Íslands

Menntun

Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna Hagstofunnar var 88% í lok árs 2018 og jókst hlutfall þeirra á milli ára, líkt og þróunin hefur verið undanfarin ár. Auk fastráðinna starfsmanna störfuðu hjá Hagstofunni á árinu alls 74 lausráðnir spyrlar sem unnu samanlagt um 6,5 ársverk við innsöfnun gagna.

Margrét Vala Gylfadóttir (t.v.) og Arndís Vilhjálmsdóttir.
Margrét Vala Gylfadóttir (t.v.) og Arndís Vilhjálmsdóttir

Fræðsla

Boðið var upp á fjölbreytta fræðslu á árinu eins og svo oft áður. Starfsfólk fékk kynningu á persónuverndarlöggjöfinni og fyrirlestur um netöryggi auk þess sem stjórnendur sátu námskeið um orðspor. Mikið var um kynningar af ýmsu tagi. Nýir starfsmenn fengu sérstaka fræðslu um Hagstofuna og starfsemi hennar, auk þess sem starfsmenn Hagstofunnar héldu kynningar fyrir samstarfsfólk sitt á áhugaverðum niðurstöðum rannsókna, byggðum á gögnum Hagstofunnar.

Félagslíf

Starfsmannafélag Hagstofunnar stóð fyrir ýmsum uppákomum á árinu. Starfsárið byrjaði með fjölskylduhátíð í Gufunesi, þar voru grillaðar pylsur og boðið upp á leiki fyrir börn og fullorðna. Á starfsárinu ber árshátíðina jafnan hæst. Hún var haldin í golfskálanum í Garðabæ. Mæting var góð og starfsmenn skemmtu sér konunglega fram á nótt.

Mynd úr árshátíð 2018
Árshátíð 2018

Eins og hefð er orðin fyrir var farið í haustferð en að þessu sinni varð Reykjanesbær fyrir valinu þar sem Rokksafnið var heimsótt. Í haustferðinni var einnig litið inn í Kaffitár í kaffismökkun. Bjórskóli Ölgerðarinnar var heimsóttur þar sem starfsmenn fengu kynningu um sögu bjórsins á Íslandi.

Mynd úr haustferð
Fjör í haustferð!

Fyrir jólin bauð hagstofustjóri starfsfólki í jólaglögg, sem var einstaklega vel sótt þetta árið og lauk með fjörugu diskói sem stóð fram á nótt. Eins og venja er fyrir jólin, var yngri fjölskyldumeðlimum starfsmanna boðið í jólaföndur og á jólatrésskemmtun.

Af öðrum viðburðum sem starfsmannafélagið stóð fyrir, má nefna kurteisisviku þar sem starfsmenn á öllum hæðum kynntust í gegnum leik og samvinnu. Einnig var staðið fyrir göngu- og útivistardegi við Glanna í Borgarfirði. Í apríl braust páskakanínan inn á Hagstofuna og faldi fjöldann allan af páskaeggjum á leynilegum stöðum, sem starfsmenn Hagstofunnar voru reyndar ekki lengi að finna. Að lokum má nefna ýmsa tilfallandi viðburði, svo sem spila- og pókerkvöld, að ógleymdum reglulegum morgunverðar- og kökuboðum.

Gagnasöfnun og miðlun Skipurit