Fjármál og rekstur
Fjármál og rekstur

Hagstofa Íslands var rekin með 105 m.kr. tekjuafgangi árið 2018, en með tæplega 44 m.kr. afgangi árið áður. Breyting á afkomu skýrist einkum af auknum tekjum frá Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, og að ný verkefni í fjárlögum fóru seinna af stað en áætlað var.

Gert er ráð fyrir því að ganga á eigið fé á næstu árum, með því að reka Hagstofuna með tímabundnum halla, en þó innan fjárheimilda þegar tekið er tillit til ónýttra fjárveitinga frá fyrri árum.

Á árinu 2017 voru lögð fram tvö fjárlagafrumvörp fyrir árið 2018. Í fyrra frumvarpinu var gert ráð fyrir framlögum til fjögurra nýrra verkefna; umhverfisreikninga, starfaflokkunar, rannsóknar á lausum störfum og mánaðarlegar tölfræði um þjónustuviðskipti. Í seinna fjárlagfrumvarpinu komu þrjú verkefni til viðbótar; það er hagskýrslur um húsnæðismál, bætt tölfræði um ferðaþjónustu og hagskýrslur um menningu og skapandi greinar.

Samtals er því um sjö ný verkefni að ræða og þeim fylgdu aukið fjármagn í fjárlögum að fjárhæð 105 m.kr. Síðast töldu verkefnin fóru hægar af stað en áætlað var, og skýrir það að hluta til bætta afkomu Hagstofunnar árið 2018.

Tekjur

Heildartekjur Hagstofu Íslands árið 2018 námu 1.615 m.kr. Framlag frá ríkissjóði hækkaði úr 1.254 í 1.379 m.kr., eða um rétt tæp 10 %. Þar af nam fjárfestingaframlag um 25 m.kr. og afskriftir tæplega 13 m.kr.

Sértekjur Hagstofunnar námu 236 m.kr. sem er 55% auking frá fyrra ári, eða sem nemur 84 m.kr., en sértekjur ársins 2017 námu 152 m.kr.

Sértekjur skiptast í þjónustusamninga vegna kjaratölfræði, samtals um 73 m.kr. og seld þjónusta nam um 76 m.kr. Styrkir frá erlendum aðilum námu tæpum 64 m.kr. sem er töluverð aukning frá fyrra ári en þá námu greiðslur vegna erlendra styrkja um 19 m.kr. Sala hagskýrslna, aðrar tekjur og fjármunatekjur námu um 24 m.kr.

Rekstargjöld

Heildargjöld ársins voru um 1.510 m.kr. með afskriftum, en gjöld Hagstofunnar hækkuðu um tæplega 148 m.kr.á milli ára.

Stærstu útgjaldaliðir Hagstofunnar eru sem áður laun og launatengd gjöld, eða sem nemur 83% af heildarútgjöldum. Launakostnaður hækkaði um tæplega 117 m.kr. á milli ára, eða um 10 %. Húsnæðiskostnaður er annar stærsti útgjaldaliðurinn og nemur hann 7 % af heildargjöldum. Þriðji stærsti útgjaldaliður Hagstofunnar er þjónusta sem var um 5% af heildargjöldum.

Hlutfallsleg útgjaldaskipting Hagstofunnar árið 2018: 83,1% laun, 7,1% húsnæðiskostnaður og 8,3% annar kostnaður

Bókfærð eignakaup

Fjárfestingafjárveiting ársins var tæplega 25 m.kr. Eignakaup eru nú færð til eignar og afskrifuð yfir eignartímann. Kaupverð varanlegra rekstarfjármuna var tæplega 30 m.kr. og afskriftir um 13 m.kr.

Skýrsla yfirstjórnar Notendur