Gagnasöfnun og miðlun
Gagnasöfnun og miðlun

Gagnasöfnun

Skýringarmynd af þátttöku í úrtaksrannsókn um einstaklinga og heimili

Til að draga úr svarbyrði einstaklinga og fyrirtækja leggur Hagstofan áherslu á að nota stjórnsýsluskrár til að afla gagna þar sem þess er kostur. Hún stendur jafnframt að eigin gagnasöfnun meðal einstaklinga, stofnana og fyrirtækja til að geta staðið við lagalegar skuldbindingar um hagskýrslugerð.

Hagstofan stendur að umfangsmiklum úrtaksrannsóknum ár hvert. Vinnumarkaðsrannsókn fer fram allt árið líkt og rannsókn á útgjöldum heimilanna. Í vinnumarkaðsrannsókn eru einstaklingar spurðir um stöðu sína á vinnumarkaði og liggja svörin til grundvallar hagskýrslugerð um vinnumarkaðsmál.

Í rannsókn á útgjöldum heimilanna gefa einstaklingar nákvæmar upplýsingar um útgjöld heimilisins og eru niðurstöður rannsóknarinnar lagðar til grundvallar vísitölu neysluverðs. Þá rannsakar Hagstofan lífskjör í landinu árlega en lífskjararannsókn gefur meðal annars mikilvægar upplýsingar um tekjudreifingu.

Hagstofan framkvæmdi á árinu samevrópska rannsókn á notkun einstaklinga og heimila á tækjabúnaði og neti. Heildarfjöldi þátttakenda í úrtaksrannsóknum um hagi einstaklinga og heimila var tæplega 30 þúsund á árinu og svörun að meðaltali um 61%.

Hagstofan stendur einnig að víðtækri gagnasöfnun meðal fyrirtækja, annarra rekstraraðila og sveitarfélaga, til dæmis fyrir launarannsókn, fjárhagsupplýsingar sveitarfélaga, vísitölur neysluverðs og byggingarkostnaðar, rannsókn á rannsókna- og þróunarstarfi og þjónustuviðskipti við útlönd.

Miðlun til notenda

Hagstofa Íslands gefur út fjölda fréttatilkynninga í hverjum mánuði. Fréttatilkynningar geta fylgt uppfærslu á töflum en einnig útgáfu Hagtíðinda eða öðru fréttatengdu efni frá Hagstofunni. Í flestum tilvikum er tilkynning gefin út bæði á íslensku og ensku.

Árið 2018 gaf Hagstofan út 540 fréttatilkynningar, 278 íslenskar og 262 enskar. Það er 4% fjölgun frá fyrra ári.

Þorsteinn Þorsteinsson hóf störf sem deildarstjóri Samskipta og miðlunar í kjölfar skipulagsbreytinga
Þorsteinn Þorsteinsson hóf störf sem deildarstjóri Samskipta og miðlunar í kjölfar skipulagsbreytinga og Heiðrún Sigurðardóttir hefur komið að miðlun Hagstofunnar í yfir 20 ár
Þá eru ekki taldar með uppfærslur á talnaefni sem birtast án fréttatilkynningar. Þær eru hins vegar á birtingaráætlun eins og annað efni Hagstofunnar.
Skýringarmynd af fjölda fréttatilkynninga eftir mánuðum 2018: flestar fréttir voru 58 í júní, næstflestar 55 í mái en fæstar 34 í október og 37 í janúar

Vefur

Vefur Hagstofunnar, hagstofa.is, er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Mest sótta síðan árið 2018 (að frátalinni forsíðu) var helstu vísitölur.

Fjöldi heimsókna á hagstofa.is árið 2018 var 593.176
Vinsælustu síðurnar 2018 voru forsíða, helstu vísitölur, nöfn, vísitala neysluverðs

Fréttaáskrift

Notendur geta gerst áskrifendur að einstökum efnisflokkum Hagstofunnar og fengið tilkynningar með tölvupósti þegar nýjar fréttatilkynningar eru gefnar út.

Fjöldi áskrifenda árið 2018 var 861 við árslok

Talnaefni

Hagstofa Íslands gefur út mikið magn af talnaefni með skýringum á íslensku og ensku. Hver sem er getur nálgast talnaefnið og nýtt það í eigin greiningum.

Við árslok 2018 hafði veftöflum fjölgað um rúmlega 4% frá fyrra ári og voru þá í heildina orðnar 3.663.

Veftöflur eru flokkaðar eftir sömu fimm meginflokkum og aðalvefur Hagstofunnar: íbúar, samfélag, atvinnuvegir, efnahagur, umhverfi. Flestar töflur voru í flokknum samfélag en fæstar í umhverfi.

Fjöldi veftaflna eftir efnisflokkum árið 2018: Flestar voru í flokknum samfélag, eða 1382, næstflestar í atvinnuvegir, eða 896, þar á eftir í efnahag 744, íbúum 690, sögulegum hagtölum 125 og 46 í efnisflokknum umhverfi

Samfélagsmiðlar - Facebook

Stærsti og mikilvægasti samfélagsmiðillinn á Íslandi er Facebook sem þýðir að opinberar stofnanir þurfa að vera virkar á þeim vettvangi til að auka sýnileika sinn og efla lýðræðislega virkni. Með þetta að leiðarljósi hóf Hagstofan göngu sína á Facebook í ársbyrjun. Að jafnaði voru sett inn 2-3 innslög á viku. Áhersla var lögð á vandað og fjölbreytt efni til að auka sýnileika stofnunarinnar og ná til sem flestra. Mikið var um efni sem fól í sér samanburð við önnur lönd sem meðal annars var fengið af vefsíðu og samfélagssíðu Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í lok ársins voru fylgjendur á síðu Hagstofunnar orðnir 726.

Fylgjendur á Facebook-síðu Hagstofunnar voru 726 við árslok 2018
Þrjú vinsælustu innslögin á Facebook 2018 voru: 1. Evrópski tölfræðidagurinn (myndband), 2. Aldarafmæli fullveldis (myndband), 3. Vantar þig hlutasarf með skóla (atvinnuauglýsing)

Útgáfa myndbanda

Hagstofan gaf út tvö myndbönd á árinu sem var dreift á vef stofnunarinnar, Twitter, Facebook og Youtube.

Fyrra myndbandið var frumsýnt á evrópska tölfræðideginum, laugardaginn 20. október og var það með áherslu á ungt fólk. Á þeim degi vöktu hagstofur í Evrópu athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna fyrir evrópskt samfélag. Lýðræðisríki þurfa að hafa aðgang að traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðilegra upplýsinga.

Seinna myndbandið var frumsýnt á fullveldisdaginn þann 1. desember en þá fögnuðu Íslendingar 100 ára afmæli fullveldis. Í myndbandbandinu var horft um öxl og sumt af því rifjað upp sem hefur breyst á liðinni öld.

Upplýsingaþjónusta

Eitt af þremur gildum Hagstofu Íslands er þjónusta, en undir því starfrækir Hagstofan m.a. upplýsingaþjónustu.

Starfsfólk upplýsingaþjónustu svarar fyrirspurnum og leiðbeinir notendum um vef Hagstofunnar. Hægt er að hafa samband við upplýsingaþjónustuna á ýmsa vegu, en langoftast berast fyrirspurnir í gegnum síma, með tölvupósti eða í gegnum vefform.

Tölvupóstfang upplýsingaþjónustu er upplysingar@hagstofa.is og símanúmer upplýsingarþjónustu er 528-1100
Notendur Mannauður